Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Uppsetning á vinnslubúnaði í Kaldbak EA 1 gengur vel

Uppsetning á vinnslubúnaði í ísfisktogarann Kaldbak er í fullum gangi hjá Slippnum Akureyri og gengur vel. Stór hluti af búnaðinum er kominn um borð í skipið og er verið að stilla hann af og setja upp hluta af tölvustýringu fyrir vinnsludekkið. Hjörvar Kristjánsson, verkefnnastjóri nýsmíða hjá Samherja, segir að það ríki mikil eftirvænting fyrir nýja vinnsludekkinu.

„Við erum mjög spennt fyrir vinnsludekkinu í Kaldbak. Það var lögð mikil áhersla á öfluga blæðingu, þvott og góða kælingu á fisknum og við erum fullviss að gæði afurða úr Kaldbak verði framúrskarandi”.

Áætlað er að uppsetning á vinnsludekki Kaldbaks verði lokið fyrir upphaf nýs fiskveiðiárs og að skipið haldi til veiða strax í kjölfarið.

Slippurinn Akureyri útskrifar 15 nemendur úr Iðnir

Föstudaginn 24. maí útskrifaði Slippurinn á Akureyri 15 nemendur úr valáfanganum Iðnir fyrir alla sem unnin er í samstarfi við grunnskóla Akureyrar. Um er að ræða valáfanga fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem ætlað er að vekja áhuga grunnskólanemenda á iðngreinum og kynna fyrir þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðngreinar hafa upp á að bjóða. Námið er fjölbreytt og byggir á fræðslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum og fer námskeiðið að mestu leyti fram í Slippnum á Akureyri. Starfsfólk Slippsins og umsjónaraðilar frá grunnskólum Akureyrar halda utan um áfangann og fá nemendur að kynna sér helstu starfsemi Slippsins, t.d. vélvirkjun, stálsmíði, ryðfría smíði, tölvuteikningu, rafeindatækni og fleira.


„Slippurinn er gríðarlega stoltur að geta boðið upp á svona áhugaverðan valáfanga fyrir grunnskólanemendur í 9 og 10 bekk hér á Akureyri. Við fórum af stað með þetta verkefni í fyrra og það hefur gengið ótrúlega vel, á þessu ári þá fórum við einnig í heimsóknir í Verkmenntaskólann á Akureyri og Rafeyri sem var mjög skemmtilegt og fræðandi fyrir nemendur. Alls eru þetta 15 skipti á vorönn sem nemendur mæta í og skila af sér video-dagbók eftir hvern tíma. Mikil ásókn er í þennan valáfanga og því miður þá komast færri að en vilja” Segir Kristján Heiðar Kristjánsson, Mannauðsstjóri Slippsins Akureyri ehf.

Nemendur kynna lokaverkefnin sín

Nýtt mötuneyti tekið í notkun

Sylvía Benediktsdóttir og Viktoryia Matusevich standa vaktina í nýju mötuneyti Slippsins á Akureyri.
Sylvía Benediktsdóttir og Viktoryia Matusevich standa vaktina í nýju mötuneyti Slippsins á Akureyri.

Nýtt mötuneyti var tekið í notkun hjá Slippnum á Akureyri fyrr í þessum mánuði. Framkvæmdin fólst í endurbótum á matsal þar sem m.a. sett var nýtt kerfisloft til að bæta hljóðvist og fyrirkomulagi á matsalnum var breytt. Ennfremur voru öll eldhústæki endurnýjuð ásamt öllum borðbúnaði, borðum og stólum. Nýtt skráningarkerfi var einnig tekið í notkun þar sem starfsmenn Slippsins nota starfsmannakortin sín til að greiða fyrir matinn í stað matarmiða.
„Matsmiðjan, áður Lostæti, hafði þjónustað okkur með mötuneyti hér til fjölda ára og gert vel. Við hinsvegar tókum þá ákvörðun að segja skilið við Matsmiðjuna og gera tilraun með að Slippurinn myndi reka sitt eigið mötuneyti því það skiptir gríðarlega miklu máli að geta boðið starfsfólki upp á góða aðstöðu og góðan mat á viðráðanlegu verði. Framkvæmdin tók rúma þrjá mánuði og er útkoman frábær. Kortakerfið er enn í þróun og verður orðið fullklárt eftir örfáar vikur. Þá eru starfsmenn einnig farnir að forskrá sig í mat en það er afar mikilvægur þáttur í því að halda kostnaði niðri og minnka matarsóun“
segir Kristján Heiðar mannauðsstjóri hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Slippurinn réð Sylvíu Benediktsdóttur sem matráð en hún þekkir vel kröfurnar okkar þar sem hún var matráður Matsmiðjunnar í Slippnum og samhliða henni mun Viktoryia Matusevich starfa í nýja mötuneyti Slippsins.

Erlend skip í Slippnum á Akureyri

Kanadíski rækjutogarinn Newfound Pioneer, sem er í eigu Newfound Rescources, hefur nú verið í slipp á Akureyri í rúman mánuð. Skipið er í hefbundinni klassaskoðun og hefur verið botnmálað, sinkað, öxuldregið auk þess sem skipt hefur verið um stálplötur í skipinu ásamt öðrum minni viðhaldsverkefnum. Skipið er eitt af fjölmörgum erlendum skipum sem hafa komið í Slippinn á Akureyri á undaförnum árum.

„Skipaflotinn hérna á Íslandi hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun og þar að leiðandi koma skipin sjaldnar og í minni slippa en áður. Þess vegna höfum við hjá Slippnum á Akureyri lagt meiri áherslu á að fá erlend skip til okkar, aðallega frá Rússlandi, Grænlandi, Kanada og Noregi. Samkeppnin er þó mikil, bæði hér heima og erlendis“ segir Ólafur Ormsson, sviðsstjóri hjá Slippnum á Akureyri, aðspurður um málið.

Í næstu viku kemur grænlenski togarinn Nataarnaq, sem er í eigu Ice Trawl Greenland og Royal Greenland, og mun vera í slipp í einn mánuð. Þar mun fara fram vélarupptekt á skipinu, öxuldráttur, viðhald á vindukerfi og skipið verður botnmálað.

„Verkefnastaðan er góð næstu mánuðina en að sjálfsögðu viljum við geta horft lengur fram í tímann. Það sem gefur okkur ákveðið forskot er að við erum stór vinnustaður og við bjóðum upp á fjölbreytta þjónustu. Einnig störfum við eftir ISO 9001 gæðakerfinu sem er alþjóðleg vottun og tryggir að við þurfum að uppfylla gæðakröfur og fara eftir ákveðnum verkferlum í okkar þjónustu, sem viðskiptavinir okkar kunna að meta“ segir Ólafur í viðtali við heimasíðuna.

Slippurinn Akureyri annast framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki í nýjan frystitogara Nergård Havfiske

Slippurinn Akureyri hefur gengið frá samningi um hönnun, framleiðslu og uppsetningu
á vinnsludekki um borð í nýjan frystitogara norsku útgerðarinnar Nergård Havfiske.
Norska skipasmíðastöðin Vard sér um smíði á skipinu og mun Slippurinn hafa
yfirumsjón með vinnsludekkinu og býður upp á heildarlausn ásamt undirvertökum
eins og Intech, Marel, Baader og Holmek.

„Samningurinn við Nergård Havfiske er stærsti einstaki samningurinn sem Slippurinn
hefur gert sem snýr að vinnsludekki eins fiskiskips og er mikil viðurkenning fyrir okkur
á allan hátt. Við höfum verið í mikilli sókn á markaði fyrir vinnslubúnað í fiskiskip og
landvinnslur á undanförnum árum og erum við mjög ánægð með að Nergård hafi
valið okkur í þetta verkefni“ segir Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdarstjóri Slippsins
á Akureyri.

Skipið er 80 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og mun vinnsludekkið vera með
vinnslulínu fyrir bæði bolfisk og rækju. Áætlað er að hið nýja fiskiskip verði tilbúið til
veiða í febrúar á næsta ári.

Á undaförnum fimm árum hefur Slippurinn afhent sex millidekk í frystitogara, flest
þessara verkefna eru unnin með félögum tengdum Samherja. Sú mikla þekking sem
Samherji býr yfir við fiskveiðar og vinnslu hefur stórelft allar lausnir sem Slippurinn
býður nú uppá og hafa þessar lausnir vakið mikla eftirtekt í alþjóðlegum sjávarútvegi.
Í þessu sambandi nægir að nefna að árið 2017 afhenti Slippurinn vinnsludekk í
frystitogaranna Berlin NC 105 og Cuxhaven NC 100 fyrir Deutsche Fischfang Union
og hefur reynsla útgerðarinnar af þessum millidekkjum verið sérstaklega góð.

Einnig má nefna að Slippurinn hefur einnig tekið að sér framleiðslu og umsjón á
milldekkjum fyrir ísfisktogara. Slippurinn tók að sér umsjón með heildarlausn á
vinnsludekki í ísfisktogarann Björg EA 7 fyrir Samherja í fyrra og hefur aflinn og
aflameðferðin í skipinu verið fyrsta flokks.

„Þau verkefni sem við höfum verið að vinna að á undaförnum árum hafa komið
gríðarlega vel út. Við höfum þróað okkar búnað og lagt meiri áherslu en áður að
bjóða upp á heildarlausnir til okkar viðskiptavina. Þessi samningur við Nergård og
Vard er því góður vitnisburður um þá jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað og
klár gæðastimpill fyrir Slippinn og okkar góða starfsfólk“ segir Eiríkur í viðtali við
heimasíðuna.