Naustatangi 2 (+354) 460 2900 info@slipp.is

Nýtt mötuneyti tekið í notkun

Sylvía Benediktsdóttir og Viktoryia Matusevich standa vaktina í nýju mötuneyti Slippsins á Akureyri.
Sylvía Benediktsdóttir og Viktoryia Matusevich standa vaktina í nýju mötuneyti Slippsins á Akureyri.

Nýtt mötuneyti var tekið í notkun hjá Slippnum á Akureyri fyrr í þessum mánuði. Framkvæmdin fólst í endurbótum á matsal þar sem m.a. sett var nýtt kerfisloft til að bæta hljóðvist og fyrirkomulagi á matsalnum var breytt. Ennfremur voru öll eldhústæki endurnýjuð ásamt öllum borðbúnaði, borðum og stólum. Nýtt skráningarkerfi var einnig tekið í notkun þar sem starfsmenn Slippsins nota starfsmannakortin sín til að greiða fyrir matinn í stað matarmiða.
„Matsmiðjan, áður Lostæti, hafði þjónustað okkur með mötuneyti hér til fjölda ára og gert vel. Við hinsvegar tókum þá ákvörðun að segja skilið við Matsmiðjuna og gera tilraun með að Slippurinn myndi reka sitt eigið mötuneyti því það skiptir gríðarlega miklu máli að geta boðið starfsfólki upp á góða aðstöðu og góðan mat á viðráðanlegu verði. Framkvæmdin tók rúma þrjá mánuði og er útkoman frábær. Kortakerfið er enn í þróun og verður orðið fullklárt eftir örfáar vikur. Þá eru starfsmenn einnig farnir að forskrá sig í mat en það er afar mikilvægur þáttur í því að halda kostnaði niðri og minnka matarsóun“
segir Kristján Heiðar mannauðsstjóri hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Slippurinn réð Sylvíu Benediktsdóttur sem matráð en hún þekkir vel kröfurnar okkar þar sem hún var matráður Matsmiðjunnar í Slippnum og samhliða henni mun Viktoryia Matusevich starfa í nýja mötuneyti Slippsins.

Slippurinn Akureyri annast framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki í nýjan frystitogara Nergård Havfiske

Slippurinn Akureyri hefur gengið frá samningi um hönnun, framleiðslu og uppsetningu
á vinnsludekki um borð í nýjan frystitogara norsku útgerðarinnar Nergård Havfiske.
Norska skipasmíðastöðin Vard sér um smíði á skipinu og mun Slippurinn hafa
yfirumsjón með vinnsludekkinu og býður upp á heildarlausn ásamt undirvertökum
eins og Intech, Marel, Baader og Holmek.

„Samningurinn við Nergård Havfiske er stærsti einstaki samningurinn sem Slippurinn
hefur gert sem snýr að vinnsludekki eins fiskiskips og er mikil viðurkenning fyrir okkur
á allan hátt. Við höfum verið í mikilli sókn á markaði fyrir vinnslubúnað í fiskiskip og
landvinnslur á undanförnum árum og erum við mjög ánægð með að Nergård hafi
valið okkur í þetta verkefni“ segir Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdarstjóri Slippsins
á Akureyri.

Skipið er 80 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og mun vinnsludekkið vera með
vinnslulínu fyrir bæði bolfisk og rækju. Áætlað er að hið nýja fiskiskip verði tilbúið til
veiða í febrúar á næsta ári.

Á undaförnum fimm árum hefur Slippurinn afhent sex millidekk í frystitogara, flest
þessara verkefna eru unnin með félögum tengdum Samherja. Sú mikla þekking sem
Samherji býr yfir við fiskveiðar og vinnslu hefur stórelft allar lausnir sem Slippurinn
býður nú uppá og hafa þessar lausnir vakið mikla eftirtekt í alþjóðlegum sjávarútvegi.
Í þessu sambandi nægir að nefna að árið 2017 afhenti Slippurinn vinnsludekk í
frystitogaranna Berlin NC 105 og Cuxhaven NC 100 fyrir Deutsche Fischfang Union
og hefur reynsla útgerðarinnar af þessum millidekkjum verið sérstaklega góð.

Einnig má nefna að Slippurinn hefur einnig tekið að sér framleiðslu og umsjón á
milldekkjum fyrir ísfisktogara. Slippurinn tók að sér umsjón með heildarlausn á
vinnsludekki í ísfisktogarann Björg EA 7 fyrir Samherja í fyrra og hefur aflinn og
aflameðferðin í skipinu verið fyrsta flokks.

„Þau verkefni sem við höfum verið að vinna að á undaförnum árum hafa komið
gríðarlega vel út. Við höfum þróað okkar búnað og lagt meiri áherslu en áður að
bjóða upp á heildarlausnir til okkar viðskiptavina. Þessi samningur við Nergård og
Vard er því góður vitnisburður um þá jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað og
klár gæðastimpill fyrir Slippinn og okkar góða starfsfólk“ segir Eiríkur í viðtali við
heimasíðuna.

Nýr vefur í samstarfi við Krat

Ný heimasíða Slippsins hefur verið tekin í notkun, heimasíðan var unnin í samstarfi með Kristjáni hjá KraT og þökkum við honum fyrir frábæra þjónustu. Helstu breytingarnar á nýju síðunni er fréttaveita sem mun segja frá fréttum úr Slippnum, betri lýsing á þeim vinnslubúnaði sem við hönnum og framleiðum og einnig yfirlit yfir þau verkefni sem Slippurinn hefur verið að vinna að sem viðkemur skipaþjónustu.